22 október 2006

Fréttabréf vinnuskólans 2006

-
Vetur er nú genginn í garð og starfi Vinnuskóla Húnaþings vestra lokið í bili. Síðustu starfsmenn eru fyrir nokkru hættir en elstu nemendur skólans luku námsgöngu sinni í ágúst s.l. Okkur sem störfuðum við skólann langar hér að tíunda lauslega nám og starf sumarsins 2006.
-
Gámarnir á hafnarsvæðinu voru málaðir og miklum tíma var varið í hreinsun svæðisins
-
Verkefnin voru að vanda fjölbreytt og ólík. Sumarið byrjaði kuldalega fyrir þá sem fyrstir mættu til vinnu. Í lok maí gekk vetur skyndilega aftur í garð, eftir stutt hlé, með éljum og annarri ótíð. Þetta olli því að flokkstjórar og starfsfólk sláttuhóps varð að leita skjóls og leggja niður hefðbundin garðyrkjustörf. Þá var gripið til þess ráðs að taka aðstöðu vinnuskólans í gegn. Settar voru upp hillur, nýr eldhúsvaskur, tússtöflur, hurðir lagaðar, málað og ýmislegt fleira. Það glaðnaði aftur yfir hópnum þegar snjókoman hætti og við tók rigning sem stóð reyndar næstum sleitulaust fram á haustmánuði.
-
Verkefni vinnuskólans. Starfsfólk og nemendur vinnuskólans í sumar voru rúmlega fimmtíu talsins í sex vinnuhópum þegar flest var. Verkstjóri var Arnar Birgir Ólafsson og flokkstjórar þau; Harpa Vilbertsdóttir, Guðlaug Ósk Sigurðardóttir og Margrét Helga Aðalsteinsdóttir. Í sláttuhóp unnu sjö starfsmenn undir stjórn Magnúsar Péturssonar. Í byrjun júní hófst hefðbundið starf vinnuskólans. Gróðurbeð og stígar voru hreinsaðir rækilega af illgresi og rusli. Fjörur í nágrenni Hvammstanga voru gengnar til góðs og sina reitt frá tugum þúsunda trjáplantna í skógræktinni kringum Hvammstanga. Að þessu loknu var áburður borinn á grasflatir, gróðurbeð og skógræktarplöntur.
-
Unnið við göngustíginn upp í Kirkjuhvamm
-
Mikið álag var á vinnuskólanum fyrir þjóðhátíðardaginn. Opin svæði voru yfirfarin af grænvestuðum ungliðum vinnuskólans undir stjórn ráðríkra kappsfullra flokkstjóra. Garðaúrgangur var hreinsaður frá íbúum og sumarblóm sett niður í beð og potta. Þess má geta að í sumar nutum við aðstoðar Erlu Bjargar Kristinsdóttur við sumarblómin og var það mikill fengur fyrir vinnuskólann. Við þökkum henni hér með kærlega fyrir hjálpina.
-
Heyskapur í rigningu. Stærsta verkefni vinnuskólans sumar hvert er án efa grassláttur og hirðing opinna svæða. Það má segja að þetta sumar hafi heyskapur verið óvenju erfiður. Dag eftir dag hellirigndi yfir Húnaþing sem orsakaði mikið álag á sláttuvélar og starfsfólk. Svo mikil var þessi óáran að sjaldan hafa eins margir sláttumenn legið veikir heima eftir útiveruna. Hörðustu kapparnir viku þó ekki fyrir veðurguðunum, stóðu við sláttinn í kulda og vosbúð og hugsuðu til bjartari daga með sól í heiði. Þeir sólardagar sem glöddu okkur í sumar voru því betur metnir en oft áður.
-

Kvennfélagsgarðurinn var opnaður að nýju eftir gagngerar endurbætur sem erlendir sjálfboðaliðar, Veraldarvinir, unnu að

Eins og undanfarin sumur hafa starfsmenn vinnuskólans tekið að sér slátt hjá eldri borgurum og öryrkjum. Í sumar voru nokkrir slíkir garðar slegnir reglulega auk ótal opinna svæða sem tilheyra sveitarfélaginu. Fjölmargir íbúar fengu einnig aðra aðstoð frá vinnuskólanum s.s. við að losna við garðaúrgang, fá til sín gróðurmold auk annarra viðvika.


Námskeið og fræðsla. Haldið var námskeið á vegum Jafningjafræðslunnar í samstarfi við vinnuskólann á Blönduósi. Krakkar og flokkstjórar frá báðum vinnuskólunum hittust á Blönduósi og áttu þar góðan dag með fræðslu og grillkjöti.


Erlendir sjálfboðaliðar. Í júlí fengum við liðsauka frá fjarlægum löndum. Um var að ræða rúmlega tuttugu meðlimi í sjálfboðaliðasamtökunum Seeds og Veraldarvinum. Þau komu hingað til að vinna að margvíslegum umhverfisverkefnum og til að aðstoða við unglistahátíðina, Eld í Húnaþingi. Hópurinn dvaldi í grunnskólanum á Hvammstanga og segja má að þar hafi verið alþjóðleg umhverfis- og listamiðstöð ungs fólks í þær vikur sem þau dvöldu hér. Við þökkum skólastjórnendum Grunnskóla Húnaþings vestra kærlega fyrir aðstoðina sem og Brynju Bjarnadóttur, Brynjólfi Sveinbergssyni og Hörpu Vilbertsdóttur sem elduðu ofan í sjálfboðaliðana dýrindis húnverska rétti meðan þau dvöldu hér. Þá má ekki gleyma Bangsa sem var okkur innanhandar með margvíslegri fræðslu og í viðgerðum á gömlu legumerkjunum á Hvammstanga.


Eldur í Húnaþingi. Nemendur vinnuskólans lögðu mikið á sig til að gera unglistahátíðina Eld í Húnaþingi eftirminnilega. Settur var upp hinn árlegi gjörningur Líf í skrúðgarði eða Central Park Hvammstangi. Þá breyttist Bangsatúnið í hámenningarlegan skrúðgarð að erlendri fyrirmynd. Bæjarstjórinn og ungfrú Húnaþing vestra afhjúpuði nýja styttu af fyrsta landnema héraðsins meðan strokufangar hlupu eftir stígunum með lögregluna á hælunum. Brugðið var á leik hér og þar með tónleikahaldi, fantasíu, listasýningum og öðrum gleðskap.

Við afhjúpun styttunar af Miðfjarðarskegga við Félagsheimilið Hvammstanga.

Það að koma saman, vinna að skapandi hugmyndum og setja upp uppákomur sem þessa getur reynst dýrmætara fyrir samfélagið en margan grunar, því líklegt er að slík reynsla nýtist ungum Húnvetningum vel síðar meir og þá hugsanlega á öðrum sviðum samfélagsins.

Önnur verkefni. Í þessum pésa er ekki hægt að fara ítarlega í verkefnalista sumarsins en til að gera langa sögu stutta má nefna að hellulögð voru tvö lítil plön við Hvammstangabraut og þar settir upp bekkir, ásamt ruslbiðum, holtagrjóti og trjágróðri. Gróðursettar voru víðiplöntur í fjögur skjólbelti við smábýlalóðirnar og umhverfis Grettisgarðinn á Laugarbakka. Stór tré voru flutt í Bangsatún og búin til ný trjábeð, þar var og sett niður meira af holtagrjóti og þrír gamaldags virðulegir ljósastaurar settir upp.

Ekki var slegið slöku við sláttinn í sumar þrátt fyrir vætutíð

Þökulagt var stórt svæði við sláturhúsið og fjöldamörg önnur, gróðursettar þúsundir plantna í skógræktarsvæðin, gróðursett í trjábeð á Reykjartanga, smíðaðar tvær gönguprílur yfir girðingar, leiktækin í leikskólanum gerð upp, göngustígurinn frá Strandgötu upp í Kirkjuhvamm að mestu kláraður og margt, margt, margt fleira.


Að lokum þökkum við nemendum vinnuskólans, starfsmönnum áhaldhúss, sveitastjórnarskrifstofu, verktökum og öðrum íbúum Húnaþings vestra kærlega fyrir gott samstarf og ábendingar á liðnu sumri.


Sjáumst heil, starfsfólk Vinnuskólans

Engin ummæli: